
Hypnum cupressiforme Hedw. (holtafaxi) er mjög algengur mosi um allan heim, nema á Suðurskautslandi, einkum þó í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Þetta er ein fyrsta tegundin, sem flestir byrjendur í mosafræðum læra að þekkja úti í náttúrunni, þó að breytileikinn sé mikill.
Plöntur eru meðalstórar, 2-10 cm á lengd (sjaldan lengri), oftast jarðlægar, glansa, grænar eða ljósgrænar til nokkuð brúnleitar eða gulbrúnar, einkum eldri hlutar plöntu (stöngull); óreglulega greinóttar.
Neðan á stöngli og greinum eru oft rauðbrúnir rætlingar, sléttir. Yfirþekja í stöngli úr litlum, þykkveggja frumum; miðstrengur illa þroskaður.
Blöð standa út í tvær áttir og sveigjast niður að jörð, egglensu- eða lensulaga, 1,5-2,2 x 0,5-0,8 mm að stærð; mjókka fram í mjóan odd; jafnan heilrend nema stöku sinnum tennt fremst; blaðrönd flöt nema neðst er hún lítið eitt útundin. Rif stutt og klofið eða ekkert. Örblöð þráð- eða lensulaga, 1-3 frumur við grunn, fá, nærri hliðargreinum.

Frumur 50-80 x 4-6 μm; grunnfrumur styttri og breiðari og með þykkari veggi; hornfrumur mynda þríhyrnt til ferhyrnt svæði með ferningslaga, óreglulegar frumur; smáar og grænar í efri hluta horna; á stundum eru frumur neðst í hornum gulbrúnar eða glærar.
Plöntur eru einkynja og sjaldan með gróhirzlur. Stilkur er rauðbrúnn, 1-2,5 cm á lengd. Gróhirzla rauðbrún, 1,8-2,8 cm löng, sívöl og bogin. Lok með beinni trjónu og keilulaga. Gró 18-20 μm að þvermáli, fín-vörtótt.
Vex í hálfgrónu landi, á steinum, klöppum, melum, holtum, hraunum og víðar. Er algengur hér á landi á láglendi, nema hefur aldrei fundizt frá Stöðvarfirði norður og vestur að Eyjafirði.

Tegundin er mjög breytileg og mörgum afbrigðum hefur verið lýst.
Samnefni: Hypnum pseudo-fastigiatum J. K. A. Müller, Stereodon cupressiformis (Hedwig) Mitten
Aðvörun:
Á þessum stað: https://floraislands.is/mosar.html stendur skírum stöfum orðrétt:
»Eini íslendingurinn sem lagt hefur stund á mosaflóru Íslands af nokkurri alvöru, er Bergþór Jóhannsson.«
Menn eru því beðnir um að trúa því mátulega, sem greint er frá á vefslóð þessari.
Rétt er að geta þess, að nú hefur þessum texta verið breytt (20./3.).
ÁHB / 10.3. 2013