Posted in

Hypnum cupressiforme – holtafaxi

Hypnum cupressiforme er jafnan auðþekktur. Ljósm. ÁHB.
Hypnum cupressiforme er jafnan auðþekktur. Ljósm. ÁHB.
Hypnum cupressiforme er jafnan auðþekktur. Ljósm. ÁHB.
Hypnum cupressiforme er jafnan auðþekktur. Ljósm. ÁHB.

Hypnum cupressiforme Hedw. (holtafaxi) er mjög algengur mosi um allan heim, nema á Suðurskautslandi, einkum þó í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Þetta er ein fyrsta tegundin, sem flestir byrjendur í mosafræðum læra að þekkja úti í náttúrunni, þó að breytileikinn sé mikill.

Plöntur eru meðalstórar, 2-10 cm á lengd (sjaldan lengri), oftast jarðlægar, glansa, grænar eða ljósgrænar til nokkuð brúnleitar eða gulbrúnar, einkum eldri hlutar plöntu (stöngull); óreglulega greinóttar.

Neðan á stöngli og greinum eru oft rauðbrúnir rætlingar, sléttir. Yfirþekja í stöngli úr litlum, þykkveggja frumum; miðstrengur illa þroskaður.

Blöð standa út í tvær áttir og sveigjast niður að jörð, egglensu- eða lensulaga, 1,5-2,2 x 0,5-0,8 mm að stærð; mjókka fram í mjóan odd; jafnan heilrend nema stöku sinnum tennt fremst; blaðrönd flöt nema neðst er hún lítið eitt útundin. Rif stutt og klofið eða ekkert. Örblöð þráð- eða lensulaga, 1-3 frumur við grunn, fá, nærri hliðargreinum.

Blöð á Hypnum cupressiforme eru talsvert breytileg. Teikn. ÁHB.
Blöð á Hypnum cupressiforme eru talsvert breytileg. Teikn. ÁHB.


Frumur 50-80 x 4-6 μm; grunnfrumur styttri og breiðari og með þykkari veggi; hornfrumur mynda þríhyrnt til ferhyrnt svæði með ferningslaga, óreglulegar frumur; smáar og grænar í efri hluta horna; á stundum eru frumur neðst í hornum gulbrúnar eða glærar.

Plöntur eru einkynja og sjaldan með gróhirzlur. Stilkur er rauðbrúnn, 1-2,5 cm á lengd. Gróhirzla rauðbrún, 1,8-2,8 cm löng, sívöl og bogin. Lok með beinni trjónu og keilulaga. Gró 18-20 μm að þvermáli, fín-vörtótt.

Vex í hálfgrónu landi, á steinum, klöppum, melum, holtum, hraunum og víðar. Er algengur hér á landi á láglendi, nema hefur aldrei fundizt frá Stöðvarfirði norður og vestur að Eyjafirði.

Hypnum cupressiforme vex við nær allar aðstæður nema í votlendi, einkum þó á steinum og í klettum. Ljósm. ÁHB.
Hypnum cupressiforme vex við nær allar aðstæður nema í votlendi, einkum þó á steinum og í klettum. Ljósm. ÁHB.

 

Tegundin er mjög breytileg og mörgum afbrigðum hefur verið lýst.

Samnefni: Hypnum pseudo-fastigiatum J. K. A. Müller, Stereodon cupressiformis (Hedwig) Mitten

Aðvörun:
Á þessum stað: https://floraislands.is/mosar.html stendur skírum stöfum orðrétt:
»Eini íslendingurinn sem lagt hefur stund á mosaflóru Íslands af nokkurri alvöru, er Bergþór Jóhannsson.«

Menn eru því beðnir um að trúa því mátulega, sem greint er frá á vefslóð þessari.

Rétt er að geta þess, að nú hefur þessum texta verið breytt (20./3.).

ÁHB / 10.3. 2013