Skollafingur – Huperzia Bernh.
Ættkvíslin er nefnd eftir þýskum eðlis- og garðyrkjufræðingi, Johann Peter Huperz (1771-1816). Til ættkvíslar þessarar teljast um 400 tegundir (1-3 hér). Á stundum er henni skipt á tvær kvíslir, Huperzia í þröngri merkingu með um 10-15 tegundir í tempraða beltinu og á heimsskautasvæðinu og síðan allar hinar Phlegmariurus, sem vaxa einkum í hitabeltinu og hinu heittempraða; margar þeirra eru ásætur. Sumir grasafræðingar telja Huperzia til sérstakrar ættar, skollafingursættar (Huperziaceae).
Skollafingur – Huperzia selago (L.) Bernh. ex Schrank & Mart.
Stöngull uppréttur eða uppsveigður, oft greinóttur. Fjölær, sígræn þófaplanta. Blöð í óreglulegum röðum á stöngli, lensulaga, stilklaus, 5-8 mm á lengd, heilrend, dökkgræn, oft gulleit. Gróbæru blöðin dreifð um stöngul, einkum ofantil, skera sig ekki úr. Gróhirslur í blaðöxlum, nýrlaga. Á víð og dreif á stöngli myndast oft æxliknappar, gerðir úr 6 litlum blöðum. Þeir stuðla að kynlausri dreifingu plöntunnar.
Flestir skipta tegundinni í tvær undirtegundir samkvæmt eftirfarandi greiningarlykli, en skil á milli þeirra eru þó óviss:
1. Stönglar um 15 mm á breidd. Blöð útstæð. Oft án æxliknappa eða þeir eru í einum kransi efst á plöntunni ………………………………………………………………….…………………….. ssp. selago
1. Stönglar um 5 mm á breidd. Blöð aðlæg. Oftast með æxliknappa í einum eða fleiri krönsum …………….… ssp. arctica
Undirtegundin ssp. arctica (Grossh. ex Tolm. ) Á. Löve et D. Löve er mun algengari en ssp.selago. Á stundum er ssp. arctica skipt í tvær sjálfstæðar tegundir samkvæmt eftirfarandi greiningarlykli:
1. Neðri blöð útstæð, efri blöð aðlæg. Efri blöð mjó-þríhyrnd. Yfirleitt má finna nokkrar gróhirzlur… paufafingur (H. appressa).
1. Öll blöð aðlæg, efri blöð egglaga. Oftast aðeins með æxliknappa, en gróhirzlur eru fáséðar …………… skufsafingur (H. arctica).
Paufafingur – Huperzia appressa (Bach. Pyl. ex Desv.) Á. & D. Löve Greinar standa ekki þétt saman, grannar; engin skil á milli árssprota. Efstu blöð aðlæg, hin neðri útstæð, þykk, jafnan gulgræn. Yfirleitt með gróhirzlur. Nær alltaf með einn krans af æxliknöppum á yngsta árssprota og einn eða fleiri á eldri sprotum.
Skufsafingur – Huperzia arctica (Grossh. ex Tolm.) Sipliv. Þéttar greinar; engin skil á milli árssprota. Öll blöð aðlæg, stutt, þykk, gul- eða brúngræn. Ætíð með æxliknappa, gróhirzlur fáséðar.
5-15 cm á hæð. Vex í gjótum, urðum og klettaskorum. Algengur um land allt nema í Mh.
Eldri nöfn á skollafingri eru vargslappi, tröllafótur, hrossajafni og villiviðargras. Nöfnin paufafingur og skufsafingur eru nýnefni. – Annars staðar á Norðurlöndum var sterkt seyði af plöntunni notað til þess að eyða lúsum, valda fósturláti, örva hægðir og drepa innyflaorma.
Enska: Fir (Northern, Mountain) Clubmoss
Danska: Otteradet Ulvefod
Sænska: Lopplummer
Norska: Lusegras Finnska: Ketunlieko
Þýzka: Tannen-Bärlapp
Franska: Lycopode Sélagine, Huperzie sélagine