
Stóruburknaætt – Dryopteridaceae
Til ættarinnar teljast um 750 tegundir, sem dreifast víða um heiminn. Fjöldi ættkvísla er nokkuð á reiki. Flestar tegundir vaxa í Suður-, Suðaustur- og Austur-Asíu og lifa í jarðvegi eða á steinum en mjög fáar í trjám.
Tegundir beggja ættkvísla, stóruburkna og skjaldburkna, eru meðal vinsælustu ræktunarplantna.
Lykill að ættkvíslum:
1. Gróhula skjaldlaga ………………………………………………….. skjaldburknar (Polystichum)
1. Gróhula nýrlaga (vik lokað) ……………………………………. stóruburknar (Dryopteris)
Stóruburknar – Dryopteris Adans.
Blöð vaxa upp af stuttum og fjölærum jarðstöngli. Blaðstilkar frekar stutter, oft flosugir, einkum neðan til. Blaðka ein- til fjór-hálffjöðruð, lensulaga eða lang-þríhyrnd, lengri en breið. Gróblettir á neðra borði, kringlóttir; gróhula yfirstæð, nýrlaga.
Ættkvíslarnafnið Dryopteris er komið úr grísku, drys, eik og pteris, vængur, en var haft um burkna almennt; merkingin er burkni, sem vex við eikartré (Quercus). Nafnið kemur einnig fyrir sem viðurnafn í latnesku heiti þrílaufungs (Gymnocarpium dryopteris).
Lykill að tegundum:
1. Blaðstilkur margfalt styttri en blaðka; blöð tvíhálffjöðruð ………… stóriburkni (D. filix-mas)
1. Blaðstilkur lítið eitt styttri en blaðka; blöð þrí-fjórhálffjöðruð, bleðlar hliðarsmáblaða misstórir …. dílaburkni (D. expansa)

Stóriburkni – Dryopteris filix-mas (L.) Schott
Jarðstöngull láréttur eða hallandi, sver. Öll blöð eins, vex í stórum þyrpingum. Stilkur um þriðjungur af lengd blöðku, ljósbrúnn neðst, oft grænn efst; móflosugur. Blaðka aflöng eða oddbaugótt, oddmjó en þverstýfð að neðan; tví- eða tvíhálffjöðruð. Bleðlar bogsagtenntir, snubbóttir. Gróblettir á neðra borði jafnan 5 eða 6 á hverjum bleðli í tveimur röðum. Gróhula langæ, kringlótt eða nýrlaga.
Vex í gjám, snjódældum og kjarrlendi. Víða á NV og SV; sjaldgæfur á V og A, mjög sjaldgæfur annars staðar. 30-90 cm hæð.

Jarðstöngull hefur verið brúkaður um aldaraðir og er enn að finna í mörgum lyfjaskrám, því að hann drepur innyflaorma; af því nafnið Worm Fern. Um 15 grömm af jarðstöngli skyldu etin með miði, en áður áttu menn að hafa etið hvítlauk. Í stönglinum er eitur og því skyldu menn varast að neyta hans í stórum skömmtum, og alls ekki ósoðinn. Sé stóriburkni brenndur til ösku má nýta öskuna til sápugerðar, því að í henni eru auðleyst sölt. Talsverð hjátrú loðir einnig við stóraburkna í ýmsum löndum. Blöð gefa grænan lit.
Viðurnafnið filix-mas táknar karlburkni.
Nöfn á erlendum málum:
Enska: common male fern, worm fern
Danska: Almindelig Mangeløv
Sænska: träjon
Norska: ormetelg
Finnska: kivikkoalvejuuri
Þýzka: Gemeiner Wurmfarn
Franska: fougère mâle
Dílaburkni – Dryopteris expansa (C.Presl) Fraser-Jenk. & Jermy
Jarðstöngull uppréttur eða hallandi. Öll blöð eins. Stilkur þriðjungur til helmingur af lengd blöðku; þéttflosugur neðan til og settur kirtildílum. Blaðka stór, breiðegglaga til þríhyrnd, þrí- til fjórhálffjöðruð. Á neðstu blaðflipum eru neðstu hliðargreinar, sem vísa niður mun lengri en þær sem vísa upp. Bleðlar flipóttir, broddyddir. Gróblettir á neðra borði í einni eða tveimur röðum, jafnvel óreglulegir. Gróhula nærri kringlótt.
Vex í urðum, gjám og kjarri. Víða á SV, V og NV, sjaldgæfur á N. 30-90 cm á hæð.
Viðurnafnið expansa, expansus, merkir útbreiddur.
Nöfn á erlendum málum:
Enska: spreading wood fern, northern buckler fern, arching wood fern, crested wood fern, northern spreading wood fern, northern wood fern
Danska: Finbladet Mangeløv
Sænska: nordbräken, nordlig lundbräken
Norska: sauetelg
Finnska: isoalvejuuri
Þýzka: Feingliedriger Dornfarn
Franska: dryoptéris étalé, dryoptère dressée
Myndir væntanlegar síðar.
Skjaldburknar – Polystichum Roth
Innan ættkvíslar eru um 260 tegundir. Skjaldburknar eru náskyldir stóruburknum. Flestar tegundir vaxa í Austur-Asíu, í Kína einni lifa um 120 tegundir; frá Mexíkó til Brasilíu eru um 100 tegundir aðrar; í Afríku einar 17; 15 í Norður-Ameríku og einungis 5 tegundir lifa í Evrópu og ein hér.
Ættkvíslarnafnið Polystichum er komið af grísku orðunum polys, margir og stichos, röð. Gróblettirnir eru í mörgum röðum.
Skjaldburkni – Polystichum lonchitis (L.) Roth

Jarðstöngull stuttur, uppréttur eða hallandi. Öll blöð eru eins, sígræn og skinnkennd. Stilkur innan við 4 cm; þéttflosugur og miðstrengur einnig. Blaðka aflöng til lensulaga, fjöðruð; efra borð dökkgrænt, glansandi, hárlaust; neðra borð ljósara með mörg hárfín hreistur. Bleðlar skakktígullaga með skarpar tennur, 1-1,5 cm á lengd. Gróblettir á neðra borði bleðla, einkum efst, í tveimur röðum. Gróhula fremur skammæ, skjaldlaga (þar af nafnið).
Vex í lautardrögum, hraunum, grýttum hlíðum og öðrum snjódældum. Nokkuð algengur nema á S. 10-30 cm á hæð.
Einnig nefndur uxatunga. Víða erlendis hefur jarðstöngull verið notaður til að drepa innyflaorma. Viðurnafnið lonchitis merkir lensulaga.
Nöfn á erlendum málum:
Enska: northern holly-fern, narrow holly fern
Danska: Krumfinnet Skjoldbregne
Sænska: taggbräken
Norska: taggbregne
Finnska: suippohärkylä
Þýzka: Lanzen-Schildfarn, Scharfer Schildfarn
Franska: polystic faux-lonchitis, polystic en lance, polystic en forme de lance

ÁHB / 23. apríl 2013