
Ættkvíslin Straminergon Hedenäs tilheyrir ættinni Calliergonaceae (hrókmosaætt) ásamt
Calliergon (hrókmosum),
Loeskypnum (hómosum)
Scorpidium (krækjumosum)
Warnstorfia (klómosum)
Sarmentypnum (kengmosum)
Ein ættkvísl til viðbótar telst til ættarinnar en vex ekki hér á landi: Hamatocaulis.
Straminergon stramineum (Brid.) Hedenäs – seilmosi
Plöntur eru meðalstórar eða litlar, ljósgrænar, hvítleitar eða grængular, lítið eða ekki greinóttar, jarðlægar eða uppréttar, 5-12 cm á lengd. Axlarhár eru fá og smá. Blöð eru aðlæg, sjaldan upprétt, bein; þau eru egglaga til langegglaga, heilrend og mjókka snögglega í snubbóttan og kúptan blaðenda. Rætlinga-myndunar-frumur oft framarlega í blaði, einnig á stöngli. Rætlingar brúnir og sléttir. Rif er mjótt og nær 60-90% fram í blaðið.
Frumur í blaði langar og mjóar, 5-10 x 45-75 µm; með frekar þykka veggi. Hornfrumur eru ferhyrndar til aflangar, tútnar; litlausar og með þunna veggi, í eldri blöðum eru þær brúnar með þykkari veggi. Horn eru egglaga og vel afmörkuð inn á við. Upp eftir blaði hverfa hornfrumur í hóp ferhyrndra frumna, sem ná nokkuð upp með blaðrönd.
Plöntur eru einkynja og gróhirzlur sjaldséðar. Gró 12-23 µm að þvermáli.
Vex í hvers konar votlendi. Algeng um land allt.
Þessi tegund er jafnan auðþekkt. Hún getur þó líkzt nokkrum öðrum, einkum Drepanocladus trifarius, Sarmentypnum sarmentosum og Calliergon cordifolium.